Hundarnir mínir

Hundarnir mínir eru þeir Morris, Texas, Iron, Tóta og Emmy Lou

Morris er af tegundinni Border Collie og verður 9 ára gamall þann 22. September 2015. Hann er frá bænum Hæl í Borgarfirði ræktaður af þeim heiðurshjónum Jóa og Hörpu. Hann er með ættbók frá Smalahundafélagi Íslands. Morris er undan Skarða frá Skarði og Rítu frá Hæl.

Allir sem þekkja Morris bera honum söguna vel. Hann er uppáhald allra og ég held að yndislegri hund sé vart hægt að finna. Hann er næmur á folk í kringum sig og vill öllum gott. Börn eru þó í sérstöku uppáhaldi hjá honum og oftast finnum við hann liggjandi fyrir neðan rúmin hjá þeim þegar minnstu börnin eru farin að sofa. Hann er heldur aldrei langt undan þegar þau eru úti að leika sér og fylgir hann þeim í hvert fótmál.

Morris er einnig fullþjálfaður björgunarhundur. Ég hef sjálf þjálfað hann frá því að ég fékk hann,sjö vikna gamlan og erum við eitt af mörgum teymum hjá Björgunarhundasveit Íslands sem erum til taks alla daga ársins ef einhver er týndur. Hann leggur sig alltaf allan fram í verkefnið og skemmtilegri vinnufélaga hef ég ekki haft um ævina. Hann er einnig óhræddur með öllu við allt það sem við tökum okkur fyrir hendur og þar ber hæst að nefna að síga úr þyrlu, en það gerði hann án þess að hugsa sig tvisvar um.

Morris er einnig liðtækur smalahundur. Við förum með landmönnum að smala á svæðinu við Landmannalaugar og þar hefur hann alltaf reynst vel og sparað eiganda sínum og fleiri fjallmönnum ófá skrefin.

Í dag er Morris sestur í helgan stein en nýtur efri áranna eins og kostur er.

Texas er af tegundinni Austrailian Cattle Dog er að koma frá bandaríkjunum. Hann er hreinræktaður og kemur frá vinnulínum en jafnframt sýningalínum. Hann fór með mér í gegnum hundaþjálfaranámið og tók próf í Klikkerþjálfun með einkunina 9.7, þefvinnu með einkunina 10,0 og hlýðnipróf með einkunina 9,7 á þeim tíma var hann einungis 7 mánaða. Ég er því bara bjartsýn á framtíðina með þessum hundi en það var ótrúlega skemmtilegt að þjálfa hann, hann er vinnusamur og alltaf jákvæður. Hann minnir mig stundum óneitanlega á gamla höfðingjann minn.

Iron eða Hlíðarenda Aris er í þjálfun til að verða þjónustuhundur. Hann er duglegur kjarkmikill hundur sem mun standa sig vel í því verkefni sem sett verður fyrir hann.

Tíkurnar Tóta og Emmy Lou eru einnig australian cattle dog og eru nýkomnar til landsins, Tóta frá Svíþjóð hennar ræktunarnafn er Snjos Koora og Emmy Lou kemur frá Þýskalandi. Þær eru bráðefnilegar báðar tvær og ef allt gengur að óskum mun Tóta verða pöruð á þessu ári. Virkilega spennandi tímar framundan í þessum litla stofni sem til er hér á landi. En einungis þrír hundar eru til á öllu landinu!

Leave a Reply