Einangrun

Allar dagsetningar má sjá í linknum hér að neðan.

Umsókn um skráningu hunds

 

Nokkur atriði.

Við rekum stöðina með dýravelferð í huga. Margir hundar þola illa að standa í heilan mánuð og því munum við bjóða upp á þjálfun og hreyfingu á meðan á dvöl stendur.

Boðið verður upp á mismunandi þjálfunarpakka fyrir hundana.

Einangrun ásamt þjálfunarpakka 1 býður upp á þjálfun 2 sinnum í viku og hreyfingu 2 sinnum í viku. Heildarverð 240.000 kr. með vsk. Þessi pakki er hugsaður fyrir þá hunda sem aldurs síns vegna eða ástand þolir ekki meiri hreyfingu eða þjálfun heldur en 2 sinnum í viku. Þetta getur einnig átt við tegundir sem eiga erfitt með mikla hreyfingu líkt og stuttnefja hundar, pug, bulldog, franskur bolabítur svo dæmi sé tekið. Hundar af tegundum sem vitað er að þurfi meiri örvun og hreyfingu eiga ekki heima í þessum flokk.  Við ráðleggjum fólki að hafa samband við starfsmenn stöðvarinnar sé það í vafa um hvort þessi þjálfunarpakka henti viðkomandi einstakling. Við áskiljum okkur þann rétt að hafna fólki um pláss í einangrunarstöðinni velji það ekki viðeigandi pakka fyrir sína hundategund.

Einangrun ásamt þjálfunarpakka 2 býður upp á þjálfun 4 sinnum í viku og hreyfingu 3 sinnum í viku. Heildarverð 270.000 kr. með vsk.

Einangrun ásamt þjálfunarpakka 3 býður upp á þjálfun 5 sinnum í viku og hreyfingu 6 sinnum í viku. Heildarverð 330.000 kr. með vsk.

Við hvetjum fólk til þess að kynna sér vel og hugsa vandlega hversu mikla þjálfun og hreyfingu hundurinn sem það hyggst flytja inn þurfi. Það er mjög mikilvægt að hundurinn sé afslappaður og vel nærður og hreyfður á meðan á dvöl stendur. Við munum einnig ráðleggja fólki með þessi atriði óski það eftir því.

Í þjálfuninni felst fyrst og fremst andleg örvun, hundurinn mun fá allskonar verkefni til að leysa, þetta geta verið allskyns æfingar líkt og  hlýðniæfingar, skemmtilegar brellur eða í raun hvað sem er sem fær hundinn til að hugsa og eyða orku eins og hægt er. Þegar hundurinn fer í hreyfingu mun hann annaðhvort fara  með þjálfara að æfa í hundafimitækjum sem eru í þjálfunaraðstöðu eða sérstöku hundahlaupabretti.

Öll rými sem hundar og kettir eru í eru teiknuð eftir nýjum dýravelferðarlögum en ekki gömlu reglugerðinni um einangrunarstöðvar. Þetta þýðir að búrin eru mun rúmbetri en gamla reglugerðin kveður á um. Innandyra munu ekki verða eiginleg búr í þeim skilningi heldur herbergi sem verða þannig úr garði gerð að hljóðvist verði sem best. Inni í hverju herbergi verður svo flatskjár sem hægt verður að sýna sérstakt hundasjónsvarpsefni (já það er til!:) eða til þess að spila klassíska tónlist og eða hlusta á útvarp. En fyrir þá sem ekki vita að þá hefur klassísk tónlist mjög róandi áhrif á hunda. Ásamt flatskjá mun hvert herbergi hafa vefmyndavél þannig að eigendur geti fylgst með dýrinu sínu öllum stundum sólarhringsins !

Fóður sem boðið verður upp á í stöðinni heitir NUTRAM og hef ég sjálf notað það núna í að verða tvö ár og líkar afskaplega vel. Hægt er að fá mismunandi fóðurgerðir og virðist vera alveg sama hvaða gerð ég prófa, hundunum líkar það afskaplega vel og líður mjög vel af því. Nutram fæst í Dýraríkinu og þar sem undirrituð er ekki fóðurfræðingur hvet ég þig til þess að fara í Dýraríkið og fá frekari fræðslu um fóðrið.

Kettir

Sama mun gilda um kisurnar. Þær munu einnig fá búr sem teiknuð er eftir nýjum dýravelferðarlögum en þau búr eru eins og hundabúrin líka rúmbetri en þau sem getið er á um gömu reglugerðinni um einangrunarstöðvar. Þær kisur sem vanar eru að vera úti hafa einnig aðgang að mjög stóru útibúri sem þær geta fengið að fara í á sólríkum dögum ! Inni í kattarrýminu er einnig flatskjár. Eigendur katta munu einnig hafa aðgang að vefmyndavél svo þau geti fylgst með dýrunum sínum þegar þau vilja.  Við höfum fullan skilning á því að ræktendur úti í hinum stóra heimi vilji síður selja ketti hingað til lands vegna þessarar einangrunarkröfu en við munum gera heimasíðuna eins aðgengilega og hægt er svo erlendir ræktendur, (hunda eða katta) geti skoðað myndir og lesið sér til um reksturinn okkar. Þar sem ég er ekki útskrifaður sérfræðingur í hegðun katta, heldur bara hunda þá tökum við gjarnan við ábendingum um hvað við ættum að gera til að kisunum geti liðið enn betur hjá okkur á meðan á dvöl stendur!

 

Eins og staðan er í dag er einungis pláss fyrir eina kisu í einu. Við vonumst til þess að ná að fjölga herbergjum fyrir kisur í náinni framtíð.

Verð fyrir ketti í einangrun er 80.000 kr (með vsk).

Dýralæknaþjónusta

Við erum í samstarfi við Dýralæknamiðstöðina á Hellu sem mun fylgjast með dýrunum og meta ástand við komu þeirra og ráðleggja með fóðurþörf og hreyfingu. Eins er hægt að meðhöndla dýrið í stöðinni komi upp minni atvik. Komi til stórra aðgerða þar sem svæfingarvélar er þörf mun það verða metið í samstarfi við Matvælastofnun. Dýralæknir er alltaf til taks fyrir starfsfólk stöðvarinnar.

 

Starfsfólk

Stöðvarstjóri Mósels er Helga Skúla. Hún sér um öll tölvupóstasamskipti ásamt því að hafa yfirumsjón með dýrunum. Helga er búin að vera nemi hjá Jóhönnu í rúmlega 2 ár og hefur fylgt henni á öllum námskeiðum og einkatímum. Helga er afskaplega fær og erum við mjög heppin með að hafa náð í hana til okkar.