Allar dagsetningar má sjá í linknum hér að neðan.
Umsókn um skráningu hunds

cropped-header.jpg

Nokkur atriði

Við rekum stöðina með dýravelferð í huga. Margir hundar þola illa að standa í heilan mánuð og því munum við bjóða upp á þjálfun og hreyfingu á meðan á dvöl stendur.

Boðið verður upp á mismunandi afþreyingarpakka fyrir hundana.

Einangrun ásamt afþreyingarpakka 1 býður upp á þjálfun/afþreyingu 2 sinnum í viku. Heildarverð 240.000 kr. með vsk. Þessi pakki er hugsaður fyrir þá hunda sem aldurs síns vegna eða ástand þolir ekki meiri hreyfingu eða þjálfun heldur en 2 sinnum í viku. Þetta getur einnig átt við tegundir sem eiga erfitt með mikla hreyfingu líkt og stuttnefja hundar, pug, bulldog, franskur bolabítur svo dæmi sé tekið. Hundar af tegundum sem vitað er að þurfi meiri örvun og hreyfingu eiga ekki heima í þessum flokk.  Við ráðleggjum fólki að hafa samband við starfsmenn stöðvarinnar sé það í vafa um hvort þessi afþreyingarpakki henti viðkomandi einstakling.

Einangrun ásamt afþreyingarpakka 2 býður upp á afþreyingu/þjálfun 4 sinnum í viku. Heildarverð 270.000 kr. með vsk.

Einangrun ásamt afþreyingarpakka 3 býður upp á afþreyingu/þjálfun og hreyfingu 6 sinnum í viku. Starfsmenn munu einnig vera í samskiptum við þá sem velja pakka 3 og ræða sín á milli hvaða áhersluatriði eigandi vill hafa í þjálfuninni. Eftir að einangrun líkur er innifalið einn einkatími þar sem farið er yfir það sem gert var og hvernig eigandi getur haldið áfram þar sem frá var horfið. Heildarverð 330.000 kr. með vsk.

Við hvetjum fólk til þess að kynna sér vel og hugsa vandlega hversu mikla þjálfun og hreyfingu hundurinn sem það hyggst flytja inn þurfi. Það er mjög mikilvægt að hundurinn sé afslappaður og vel nærður og hreyfður á meðan á dvöl stendur. Við munum einnig ráðleggja fólki með þessi atriði óski það eftir því.

Í þjálfuninni/afþreyingunni felst fyrst og fremst andleg örvun, hundurinn mun fá allskonar verkefni til að leysa, þetta geta verið allskyns æfingar líkt og  hlýðniæfingar, skemmtilegar brellur eða í raun hvað sem er sem fær hundinn til að hugsa og eyða orku eins og hægt er. Þegar hundurinn fer í hreyfingu mun hann annaðhvort fara  með þjálfara að æfa í þjálfunaraðstöðu eða sérstöku hundahlaupabretti. Starfsfólk metur það hvenær hundur er orðinn þreyttur. Við ofbjóðum aldrei kröftum hans eða þreki og pössum að við náum fram markmiðunum okkar sem eru þau að hundurinn upplifi jákvæðar tilfinningar, sé slakur og sáttur. Það er mjög misjafnt hversu mikið vinnuþrek hundar hafa, sumir geta unnið í 5 mínútur á meðan aðrir geta haldið áfram í 30 mínútur, þetta er eins misjafnt og hundarnir eru margir. Viðmiðið er að hver þjálfunarstund sé frá 5 mínútum og upp í 30 mínútur, stundum skiptum við þessu upp í nokkrum sinnum á dag, allt til þess að ná markmiðinu að hundurinn upplifi jákvæðar tilfinningar og samvinnu og traust.

Öll rými sem hundar og kettir eru í eru teiknuð eftir nýjum dýravelferðarlögum. Þetta þýðir að herbergin eru rúmgóð og þæginleg fyrir hundana. Innandyra munu ekki verða eiginleg búr í þeim skilningi heldur herbergi sem verða þannig úr garði gerð að hljóðvist verði sem best. Inni í hverju herbergi verður svo flatskjár sem hægt verður að sýna sérstakt hundasjónsvarpsefni (já það er til!:) eða til þess að spila klassíska tónlist og eða hlusta á útvarp. En klassísk tónlist hefur mjög róandi áhrif á hunda.

Myndavélar

Fyrst um sinn buðum við upp á að eigendur fengju aðgang að myndavélum sem eru í herbergjunum, það reyndist því miður ekki vel og því hefur því verið hætt. Við notum hinsvegar myndavélarnar fyrir okkur starfsfólk til að fylgjast með atferli þeirra og líðan. Myndavélarnar munu verða tengdar inn í íbúðarhús hjá okkur og því getum við fylgst með þeim á meðan við erum ekki með viðveru í stöðinni. Fólk er velkomið til okkar í kaffi til að fylgjast með þar.

Fóður

Fóður sem boðið verður upp á í stöðinni heitir NUTRAM og hef ég sjálf notað það núna í að verða tvö ár og líkar afskaplega vel. Hægt er að fá mismunandi fóðurgerðir og virðist vera alveg sama hvaða gerð ég prófa, hundunum líkar það afskaplega vel og líður mjög vel af því. Nutram fæst í Dýraríkinu og þar sem undirrituð er ekki fóðurfræðingur hvet ég þig til þess að fara í Dýraríkið og fá frekari fræðslu um fóðrið. Ef fólk kýs annað fóður er alveg sjálfsagt að koma því til okkar. Hafa þarf í huga að allt sem kemur inn í stöðina má ekki fara út aftur og passa þá að kaupa nóg en ekki of mikið.

Kettir

Sama mun gilda um kisurnar. Þær munu einnig fá búr sem teiknuð er eftir nýjum dýravelferðarlögum en þau búr eru eins og hundabúrin líka rúmgóð og glæsileg.  Inni í kattarrýminu er einnig flatskjár.

Eins og staðan er í dag er einungis pláss fyrir eina kisu í einu. Við vonumst til þess að ná að fjölga herbergjum fyrir kisur í náinni framtíð.

Verð fyrir ketti í einangrun er 140.000 kr (með vsk).

Dýralæknaþjónusta

Við erum í samstarfi við Dýralæknamiðstöðina á Hellu sem mun fylgjast með dýrunum og meta ástand við komu þeirra og ráðleggja með fóðurþörf og hreyfingu. Eins er hægt að meðhöndla dýrið í stöðinni komi upp minni atvik. Komi til stórra aðgerða þar sem svæfingarvélar er þörf mun það verða metið í samstarfi við Matvælastofnun. Dýralæknir er alltaf til taks fyrir starfsfólk stöðvarinnar.